You are here

Hljóðkerfisvitund

Hljóðkerfisvitund er tilfinning og næmi einstaklings fyrir uppbyggingu tungumálsins; hvernig hægt er að greina talmál niður í smærri hljóðeiningar og hvernig vinna má með einingarnar á mismunandi vegu. Góð hljóðkerfisvitund felst í því að hafa góða tilfinningu fyrir öllum hljóðeiningum málsins, geta t.d. sleppt úr, bætt við og/eða skipt um hljóð eða hljóðeiningar í orðum (Catts og Kamhi, 2005; Muter, 2003; Chard & Dickson, 1999; Torgesen, 1996).

Hljóðkerfisvitund þróast með tímanum frá forskólaaldri til enda grunnskólans. Hún eflist smám saman með aukinni málþekkingu, bæði á tal- og ritmáli. Börn tileikna sér fyrst einfalda/grynnri hljóðkerfisþætti en fá síðan smám saman aukna tilfinningu fyrir dýpri/erfiðari hljóðkerfisþáttum. Þau eiga t.d. auðveldara með að greina og vinna með atkvæði en hluta atkvæðis, stuðla og rím. Erfiðast reynist að ná dýpstu lögum hljóðkerfisvitundarinnar sem eru smæstu einingar málsins. Þær eru ekki eins greinanlegar og stærri hljóðeiningar svo sem orð og atkvæði (Troia, 1994). Sjá mynd af stigþyngjandi verkefnum sem reyna á hljóðkerfisvitund í eftirfarandi töflu.


(Tafla 2.1 í Muter, 2006:56)

Rannsóknir sem gerðar hafa verið undanfarna þrjá áratugi á börnum á mismunandi aldri um víða veröld sýna að enginn einn þáttur hefur jafn stöðug og sterk tengsl við lestur/orðþekkingu og hljóðkerfisvitund (Calfee og Lindamood, 1973; Torgesen o. fl., 1997; Catts o.fl., 1997; Cossu o.fl., 1988; Hu & Catts, 1997; Lundberg o.fl,. 1980; Denton o.fl., 2000 sbr. Catts og Kamhi 2005). Fjöldi rannsókna sýnir að börn með lestrarerfiðleika eru með veikleika í hljóðkerfisvitund (Bradley & Bryant, 1983; Fletcher, o.fl. 1994; Fox & Rout , 1980; Katz , 1986; Olson o. fl., 1989; Torgesen, 1996).

Börn sem eru meðvituð um hljóðeiningar málsins virðast fljótari að átta sig á tengslum stafa og hljóða og nýta sér þekkinguna til að umskrá stafi í hljóð við lestur. En vegna þess hversu óhlutbundin hljóðkerfisvitundin er þá eru börn oft mjög ómeðvituð um ýmsa þætti hennar þar til athygli þeirra er beinlínis beint að þeim. Til dæmis gera börn sér yfirleitt ekki grein fyrir því að orð eru búin til úr stökum hljóðum talmálsins fyrr en þau fara að læra stafrófið og samsvörun þess við hljóð tungumálsins. Sannleiksgildi þessarar fullyrðingar staðfesta ýmsar rannsóknir. Þær sýna að börn á leikskólaaldri, sem og ólæst fullorðið fólk, eiga í miklum erfiðleikum með að sundurgreina stök hljóð orða með nákvæmum hætti (Lundberg & Höien, 1991; Morais o.fl., 1986; Morais o.fl., 1979; Read & Ruyter, 1985). Þessar niðurstöður gefa einnig til kynna að búast megi við að börn með lestrarerfiðleika hafi veikleika í hljóðkerfisvitund vegna slakrar lestrarfærni. Þau hafa minni þjálfun og reynslu við að nota stafrófið og ná ekki eins góðri tilfinningu fyrir málhljóðunum og jafnaldrar þeirra.

Samanburður á því hvernig lestur þróast með eðlilegum hætti og meðal þeirra sem eru með dyslexíu sýnir að hæfni við hljóðkerfisúrvinnslu hefur mikið forspárgildi varðandi lestrarerfiðleika. Prófun á hljóðkerfisvitund, einkum hljóðavitund, við 5-6 ára aldur hefur sýnt marktæka forspá um lestrargetu við 9-10 ára aldur.
Hljóðkerfisvitundarpróf sem lögð eru fyrir börn yngri en fimm ára virðast ekki hafa sama forspárgildi. Því er mikilvægt að athuga vel hvenær slík próf eru lögð fyrir ef meta á hugsanlega áhættu um lestrarerfiðleika (Muter, 2003, 2006).

 

 

© Helga Sigurmundsdóttir

 

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer