You are here

Unglingar og fullorðnir

 

Hægt er að hlusta á textann með því að smella á spilarann neðst á síðunni. Þessi tengill færir þig beint þangað.

Ef lestur og stafsetning er að tefja þig við nám eða í starfi skaltu prófa að nýta þér þá tækni sem er í boði svo sem talgervla, leiðréttingarforrit, orðabækur og hljóðbækur.

Hér getur þú séð myndband þar sem Ingunn lýsir námsferli sínum.

Talgervlar

Talgervlar (þulir) eru forrit sem lesa allan texta á tölvutæku formi á mismunandi tungumálum. Einnig er hægt að láta skanna inn á tölvur eða diska bækur eða bókarkafla svo þeir geti lesið þær fyrir þig.

Hægt er að stilla leshraða talgervla og bendillinn fylgir orðunum um leið og þau eru lesin sem auðveldar þér að fylgjast með lestrinum.

Ef þú ert með orðabækur inni í tölvunni þinni geta talgervlar einnig lesið skýringarnar þegar þú smellir á orðin.

Þú getur kynnt þér þessa tækni betur hér á vefnum undir valröndinni Þjónusta -Tölvutækni, en einnig geturðu leitað ráða hjá sérkennurum, námsráðgjöfum og söluaðilum.

Hljóðbækur-DVD diskar

Kostur hljóðbóka er að þú getur hlaðið þeim inn á mp3 spilara og iPod og hlustað á meðan þú ert að gera eitthvað annað. Þetta á sérstaklega við um bækur sem þig langar að lesa þér til skemmtunar. Það er mjög gagnlegt að hlusta á margs konar lesefni. Þannig eflirðu máltilfinningu þína og orðaforða sem síðan hjálpar þér við að skrifa frá eigin brjósti ritgerðir og annað.

Ef þér gengur illa að taka eftir því sem verið er að lesa getur verið betra að hafa bókina líka og reyna að fylgjast jafnóðum með upplestrinum. Með því móti fer þér líka fram við að lesa. Oft er gagnlegt að hlusta aftur á það sama.

Hægt er að fá flestar námsbækur á hljóðbókarformi í grunnskólum og framboð þeirra er alltaf að aukast á almennum bókasöfnum. Ef þú ert með lestrargreiningu geturðu einnig fengið hljóðbækur að láni á Blindrabókasafninu.

Leiðréttingarforrit

Leiðréttingarforrit leiðrétta ekki allar villur en þau geta fækkað þeim til muna. (Sjá nánar hér á vefnum undir Þjónusta - Tölvutækni – Leiðréttingarforrit).

Ef þú ert að skrifa ritgerð eða önnur verkefni sem á að meta til einkunna, sækja um vinnu eða þarft að senda frá þér skriflegar orðsendingar geturðu einnig beðið ættingja eða góða vini að lesa yfir fyrir þig. Það getur verið öruggara.
Það er mikilvægt að halda áfram að skrifa eins mikið og þú getur, t.d. tölvupóst og að blogga. Það þjálfar lestur og stafsetningu, ekki síst vegna þess að þú verður stöðugt öruggari á stafsetningu orðanna og þá festast þau betur í sjónræna langtímaminninu.

Orðabækur

Þú skalt nýta þér orðabækur bæði á íslensku og öðrum tungumálum á tölvutæku formi. Það er fljótlegra og einnig geturðu fengið orð og skýringar lesnar upp ef þú ert með talgervil í tölvunni þinni. (Sjá einnig undir Þjónusta – Tölvutækni – Orðabækur).

Önnur mikilvæg atriði

Það er ekki ráðlegt að hætta í námi. Nám stuðlar yfirleitt að lestri. Á meðan þú þarft að lesa og skrifa verkefni þá fer þér fram hvort sem þú nýtir þér hjálpargögn eða ekki.

Leitaðu ráða hjá námsráðgjöfum og sérkennurum í skólanum þínum og öðrum sem þú þekkir með svipaða erfiðleika og fáðu góð ráð.

Íslenskukennarar og tungumálakennarar geta oft hjálpað í sínum fögum og komið til móts við nemendur með lestrar- og stafsetningarerfiðleika.

Komdu þér upp stuðningsaðila t.d. varðandi glósur og aðra aðstoð eða samvinnu við námið. (Sjá einnig glósur.is undir Þjónusta - Tölvutækni).

Skipuleggðu þig fram í tímann svo þú hafir tíma til að sinna áhugamálum þínum, fara í líkamsrækt og gera annað sem þér þykir skemmtilegt og er persónulega mikilvægt fyrir þig. Þú þarft að öllum líkindum talsverðan tíma til að læra og því er gott að gera ráð fyrir því t.d. fyrir próf og önnur krefjandi verkefni.

Reyndu að hafa gott skipulag á námsgögnum og glósum. Það flýtir fyrir þér.

Athugaðu vel hvað er í boði fyrir nemendur með lestrarerfiðleika í þeim framhalds- eða háskóla sem þú hefur hug á að sækja. Fáðu tíma hjá námsráðgjöfum skólanna til að fá upplýsingar um hvað þeir bjóða.

Ekki láta hugfallast þótt þú mætir ekki alltaf skilningi í skólum og á vinnustað. Margir eru enn að átta sig á hvað býr að baki lestrarerfiðleikum. Þú hefur allt að vinna og engu að tapa.

© Helga Sigurmundsdóttir og Steinunn Torfadóttir

 

Hljóðskrá:

 

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer