You are here

Íslensk stafsetning

Elstu varðveittu ritheimildir um íslensku eru frá tólftu öld en talið er að ritun á íslensku með latínustafrófi hafi byrjað á elleftu öld. Þrettánda öldin er blómaskeið í íslenskum bókmenntum, bæði í fagurbókmenntum og fræðilegum skrifum, og því verður snemma til ákveðin rithefð sem liggur til grundvallar stafsetningu nútímamáls. Frá fyrri hluta tólftu aldar er Fyrsta málfræðiritgerðin, einstæð lýsing á því hvernig unnt er að nota stafróf erlends máls (latínu) til að skrifa móðurmál sem ekki á sér rithefð (íslensku), og þar með ekki neina hefðbundna notkun bókstafanna.

Íslensk stafsetning mótaðist á fyrstu öldum ritunar í landinu án þess að til væru sérstakar reglur ef frá eru taldar leiðbeiningar Fyrsta málfræðingsins. Það er ekki fyrr en prentöld hefst á sextándu öld og bókaútgáfa fer vaxandi að upp kemur þörf fyrir ákveðnar reglur eða leiðbeiningar um stafsetningu. Á 18. og 19. öld varð til smám saman það samkomulag um íslenska stafsetningu sem við þekkjum núna. Það varð til á grundvelli þeirrar hefðar sem skapast hafði hjá skrifurum, útgefendum og prentsmiðjum í landinu. Fyrstu eiginlegu leiðbeiningar eða reglur um íslenska stafsetningu eru frá átjándu öld, eftir Eggert Ólafsson, og Rasmus Chr. Rask semur reglur í upphafi 19. aldar sem verða smám saman grundvöllur þeirra reglna sem við þekkjum nú (Stefán Karlsson, 1989, bls. 47-51). Sumar stafsetningarhefðir frá gullöld íslenskra bókmennta á 12. og 13. öld voru þá endurvaktar.

Á nítjándu öld er kröftuglega deilt um stafsetningu og fram á fyrri hluta 20. aldar. Konráð Gíslason og þeir Fjölnismenn töluðu fyrir framburðarsjónarmiðinu og stafsettu Fjölni samkvæmt því fyrstu árin. Höfundar kennslubóka í stafsetningu höfðu mikil áhrif og meðan ekki voru til opinberar stafsetningarreglur voru mörg sjónarmið á lofti, til dæmis auglýsti Blaðamannafélagið sérstakar reglur sem kallaðar voru blaðamannastafsetning (1898) og varð vinsæl meðal almennings.

Fyrstu opinberu reglur um íslenska stafsetningu voru settar með auglýsingu árið 1918, en þær voru endurskoðaðar 1929. Breyting var gerð með auglýsingu menntamálaráðuneytisins um íslenska stafsetningu nr 132/1974 þegar meðal annars stafurinn z var afnuminn úr reglunum. Lítilsháttar breytingar voru gerðar þremur árum síðar en síðan hefur opinber stafsetning verið óbreytt og lítið um hana deilt. Opinbera stafsetningu er skylt að nota í skólum og opinberri stjórnsýslu en annars staðar er fólki frjálst að nota eigin stafsetningu.

Algeng tilbrigði í stafsetningu á 20. öld hafa verið þessi:

·  z eða s: íslenzka eða íslenska, beztur eða bestur

·  je eða é: fjelagið eða félagið

·  i í stað y: firir eða fyrir.

·  áng eða ang: lángur eða langur

·  einfaldur eða tvöfaldur samhljóði á undan öðrum samhljóða: skemtun eða skemmtun, viltur eða villtur

·  eitt eða tvö orð: einsog eða eins og, útaf og framhjá eða út af og fram hjá

© Baldur Sigurðsson

 

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer