You are here

Kennsla

Þegar um alvarlega, sértæka lesskilningserfiðleika er að ræða er mikilvægt að kanna og kortleggja styrkleika og veikleika nemandans í málþáttum. Fyrst er að afla upplýsinga hjá foreldrum um málþróun nemandans og hvort um er að ræða greiningar á frávikum (t.d. einhverfu eða málþroskaröskun) sem gætu haft áhrif á lesskilning. Í framhaldinu mætti leita til sérkennara eða talmeinafræðinga sem þá kanna stöðu barnsins með sérstökum málþroskaprófum ef nýjar upplýsingar liggja ekki fyrir. Slík kortlagning hjálpar kennurum við að ákveða hvaða þætti vinna skuli með í lesskilnings- og orðaforðakennslu og í hvaða röð. Ekki ætti að forðast að vinna með veikleikana, það lagar ekki vanda nemandans heldur eykst vandinn með hverjum degi sem líður án viðeigandi inngrips. Kennsla sem tekur bæði mið af styrkleikum og veikleikum ætti að gefa bestan árangur. Þá er mikilvægt að hafa í huga að verkefnin séu hæfilega krefjandi, hvorki of auðveld né of erfið. Þannig finnur nemandinn fyrir raunhæfum væntingum kennarans, treystir honum og veit að kennarinn hefur trú á honum. Það styrkir innri áhuga sem aftur eflir nemandann við að leggja sig betur fram og ná árangri. 

Nemendur sem eiga erfitt með lesskilning þurfa að læra hvernig á að ná tökum á réttum og árangursríkum námsaðferðum við lestur og lesskilning. Þeir þurfa að geta nýtt sér sömu námsaðferðir við að ná lesskilningi og aðrir nemendur, en það þarf oft að kenna þeim þessar aðferðir með markvissum hætti. Kennsla í lesskilningi ætti alls ekki bíða þar til nemendur hafa náð tökum á fyrirhafnarlausum, sjálfvirkum lestri (lestækni). Kennsla í lesskilningi ætti að fara fram samhliða lestrarkennslunni, alveg frá byrjun, en þó ekki endilega með þeim lestextum sem barnið er að æfa sig að lesa hverju sinni.

Munurinn á því að kenna nemendum sem eiga í erfiðleikum með lesskilning og hinum snýst ekki um það sem kennt er heldur hvernig það er kennt. Kenna þarf lesskilning skref fyrir skref, frá hinu einfalda til hins flókna. Hverja aðferð þarf síðan að kenna aðskilda, eina í senn og þjálfa hana með viðeigandi, krefjandi texta. Hafa þarf í huga að nemendur sem eiga í erfiðleikum með lesskilning þurfa oft sérstaka áherslu á örvun og uppbyggingu orðaforða.
Til að byrja með eru aðferðir við lesskilning kenndar út frá:

  1. Einni setningu
  2. Málsgrein eða efnisgrein
  3. Stuttum, völdum kafla úr texta.

Óhlutbundin hugtök eru kennd eru út frá áþreifanlegum dæmum sem höfða til áhuga og hugsanagangs nemenda sem auðveldar þeim skilning og gerir námið áhugaverðara.

Tungumálið lærist af umhverfinu. Aðferðir kennara við að móta og þjálfa lesskilning felast meðal annars í  því að beita svokölluðum ”hugsa upphátt lestraraðferðum”, sem fylgt er eftir með markvissri þjálfun. Markmiðið er að hjálpa nemendum að þróa hugsanaferli á æðri stigum.

© Steinunn Torfadóttir

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer