You are here

Að lesa fyrir börn

Hvers vegna ættu foreldrar að lesa fyrir börnin sín?

Lestraráhugi og læsi

Rannsóknir hafa sýnt fram á að lestur fyrir börn á heimilum hefur áhrif á lestraráhuga þeirra, eflir læsi og leggur grunn að því að börnin njóti þess að lesa sjálf síðar meir.

Lestrarmenning á heimilum skiptir sköpum fyrir viðhorf barna til lesturs. Með lestrarmenningu er meðal annars átt við þau viðhorf sem ríkja á heimilinu til læsis, hversu mikið börn sjá aðra á heimilinu lesa og skrifa og hversu gott aðgengi að lesefni er á heimilinu.  

Mikill bóklestur færir börnum reynslu af ritmáli sem beinir athygli þeirra að hlutverki, eðli og uppbyggingu ritaðs máls. Sögulestur eflir enn fremur orðaforða og skilning, sem og vitund barna um sögubyggingu. Allt er þetta mikilvægt fyrir lestrarnám barnanna (Pence og Justice, 2012).

Lestrarstundir, samræður og orðaforði

Þegar samskipti í lestrarstundum einkennast af hlýju, stuðningi, hvatningu, leik og gleði, styrkja þau tengsl foreldris og barns og örva félagslegan þroska barnsins. Auk þess hefur lesturinn áhrif á þróun bernskulæsis (Kassow, 2006).

Samræður um efni bóka gefa börnum tækifæri til þess að spyrja og fá svör, segja álit sitt, álykta og gefa hugarfluginu lausan tauminn. Eftir því sem samræðurnar þróast leiða þær til dýpri hugsunar barnsins og einnig til aukins skilnings á ýmsum þáttum læsis.

Bækur sem lesnar eru fyrir yngri börn eru yfirleitt myndabækur. Í fyrstu skipta myndir megin máli í samræðum um efni bókanna, en eftir því sem börnin eldast eykst vægi textans og smám saman áttar barnið sig á hlutverki ritmáls. Það lærir til dæmis að lesið er frá vinstri til hægri, að byrjað er efst á síðu og lesið niður, að bókstafir standa fyrir orð og að það er ritmálið (bókstafirnir), en ekki myndirnar, sem ber uppi textann. Áhugi á bókstöfunum er ein af grundvallarforsendum læsis (Vukelich og Christie, 2009).

Margar rannsóknir hafa leitt í ljós að lestur og samræður um efnið sé aðferð sem eflir orðaforða barna hvað mest. Samræðulestur með yngstu börnunum felst meðal annars í því að nefna heiti persóna og athafna á mynd og tengja við reynsluheim barnsins (Kassow, 2006). Með eldri börnum getur lesturinn reynt töluvert á vitsmunalega færni, til dæmis þegar samræður um efnið byggjast á krefjandi spurningum eða heimspekilegum vangaveltum.

Orðaforði  skiptir miklu máli fyrir læsi. Gera má ráð fyrir því að barn sem hefur mikinn orðaforða hafi meiri færni til djúpstæðrar hugsunar og eigi auðveldara með tjáskipti en börn með lítinn orðaforða. Börn með mikinn orðaforða eiga þannig auðveldara með að bæta við orðaforða sinn í gefandi lestrar- og samræðustundum. Þess vegna þarf að leggja áherslu á að efla orðaforða barna með lestri og samræðum frá fyrstu tíð.

Hlutverk foreldra í lestrarstund er að stýra samræðum og styðja barnið til að halda samtalinu gangandi; skýra innihald textans, spyrja spurninga um efnið og tengja það við reynslu og aðstæður barnsins (Morrow, 2012).

Lestur fyrir börn skiptir máli

Rannsóknir hafa sýnt að það skiptir máli að lesa oft fyrir börn. Það eykur orðaforða og eflir bernskulæsi. Gæði lestrarstunda skipta einnig miklu máli. Lestrarstund á að vera skemmtileg stund þar sem bæði foreldri og barn njóta þess að lesa og spjalla saman um efnið (Walsh, 2008).

Nánari leiðbeiningar fyrir foreldra um lestur fyrir yngri börn má finna hér.

 

 

© Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer