You are here

Til kennara

Hvað á að gera ef grunur vaknar um lestrarerfiðleika hjá nemanda ?

Ef gripið er strax inn í með markvissum kennsluháttum eru meiri líkur á að hægt sé að koma í veg fyrir að börn lendi í alvarlegum lestrarerfiðleikum (sjá meira undir undir Kennsla – Snemmtæk íhlutun hér á vefnum).

Ekki bíða og sjá til, heldur gera allt sem í þínu valdi stendur til að kanna hvort grunur þinn er á rökum reistur. Þú getur athugað (t.d. í samráði við sérkennara skólans):

  • gögn sem fylgdu nemandanum þegar hann kom í skólann
  • hvernig máltaka og málþróun gekk
  • niðurstöður úr skimunarprófinu Hljóm -2 og öðrum málþroskaathugunum í leikskóla
  • hvort barnið hefur fengið sérkennslu í leikskóla og hvaða árangur það bar
  • hljóðkerfisvitund og stafaþekkingu, þar sem þessir tveir þættir eru helstu forspárþættir um lestrarerfiðleika
  • hjá foreldurm hvort saga er um lestrarerfiðleika í fjölskyldu barnsins

Hvað á að gera ef vísbendingar um lestrarerfiðleika koma fram ?

  • Reyna að kortleggja vandann eins nákvæmlega og hægt er, með því móti er hægt að mæta barninu þar sem það er statt.
  • Skipuleggja kennsluna út frá niðurstöðum matsins.
  • Taka stutt skref í einu, rifja upp og endurtaka til að tryggja árangur.
  • Gæta þess að gera hæfilegar kröfur til barnsins, en þó aldrei of miklar.
  • Tryggja að barnið læri stafina og hljóð þeirra.
  • Ekki kenna hljómlíka né útlitslíka stafi samtímis.
  • Tryggja að lestexti sé við hæfi og ekki of erfiður því það dregur úr árangri þjálfunarinnar.
  • Vinna markvisst með eftirtalda þætti daglega               
      • lestur og endurlestur (lesa stutt í einu, en oftar það sama til að þjálfa lesfimi og sjálfvirkni)
      • stafaþekkingu og hljóðkerfisvitund (einkum sundurgreiningu hljóða)
      • ritun (láta barnið skrifa stutta setningu að eigin vali á hverjum degi)
      • með orðaforða og lesskilning
      • undirbúa heimalestur (ef það er raunhæft) með kynningu á lestextanum
  • Skrá framfarir jafnt og þétt og upplýsa nemendur og foreldra um árangurinn.
  • Tryggja að nemendur fái endurtekna kennslu í þeim þáttum sem þeir hafa ekki náð nægilega góðum tökum á.
  • Byggja upp gott foreldrasamstarf til að tryggja betri árangur í lestrarnámi barnsins.
  • Vera uppörvandi, hvetja og  hrósa barninu fyrir alla góða viðleitni.

Börn fara mishratt í gegnum lestrarnámið. Sum þurfa mikla kennslu svo viðunandi árangur náist. Góð málvitund ekki síst góð hljóðkerfisvitund gefur börnum möguleika á að ,,kenna sjálfum sér að lesa”.  Árangur námsins viðheldur innri áhugahvöt og löngun til að takast á við sífellt erfiðari verkefni.  Slök hljóðkerfisvitund dregur úr möguleikum barna til að takast á við lestrarnám og lestrarþjálfun ein og óstudd. Slakur árangur dregur úr áhuga og löngun til að lesa og oft brotna nemendur niður innra með sér.  Því er mikilvægt að tryggja að barnið nái árangri við þau verkefni sem það fæst við hverju sinni.+

© Helga Sigurmundsdóttir og Steinunn Torfadóttir

 

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer