You are here

Fyrir blinda og sjónskerta

Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga

Miðstöðin er þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga og starfar skv. lögum nr. 160 frá 2008 og heyrir undir félags- og tryggingamálaráðuneytið.

Markmiðið starfseminnar er að auka möguleika þeirra sem eru blindir, sjónskertir eða daufblindir til virkni og þátttöku á öllum sviðum samfélagsins til jafns við aðra, með áherslu á stuðning til náms, sjálfstæðs heimilishalds, virkra tómstunda og atvinnuþátttöku.

Miðstöðin þjónustar jafnframt daufblinda einstaklinga á sérfræðisviðum sínum í samstarfi við aðra þjónustuaðila. Hún sinnir einnig fræðslu, ráðgjöf og stuðningi við aðstandendur, skóla og aðrar þjónustustofnanir.

Miðstöðin veitir þjónustu til og vegna einstaklinga sem eru:

  • sjónskertir, þar sem læknisfræðileg greining sýnir að sjón er minni en 30% á betra auga, með venjulegum sjónglerjum, og sjónsvið innan við 20 gráður, eða ef starfrænt mat sýnir erfiðleika vegna sjónskerðingar , t.d. með lestur 10 punkta leturs með venjulegum sjónglerjum, með athafnir daglegs lífs og umferli
  • blindir, þar sem læknisfræðileg greining sýnir að sjón er minni en 5%, með venjulegum sjónglerjum, og innan við 10 gráðu sjónsvið
  • daufblindir, þar sem saman fer sjón- og heyrnarskerðing sem takmarkar athafnasemi og hamlar þátttöku í samfélaginu í slíkum mæli að þörf er á sértækri þjónustu, laga þarf umhverfi að þörfum viðkomandi eða nýta sérstakan tæknibúnað til að mæta þörfum hansMiðstöðin veitir þjónustu vegna hæfingar og endurhæfingar þeirra sem eru blindir eða sjónskertir, að undanskilinni frumgreiningu augnsjúkdóma, frumgreiningu á sjón og læknismeðferð.

Sjá nánar á vefsíðu þjónustumiðstöðvarinnar, en þar er að finna mikið safn upplýsinga, m.a. um bækur, tæknibúnað, umsóknareyðublöð og fleira.

Blindrabókasafnið

Blindrabókasafnið er á fjárlögum ríkisins og starfar samkvæmt lögum sem segja að breyta megi prentuðu máli í aðgengilegt form fyrir þá sem geta ekki nýtt sér prentað letur.  Þetta eru fyrst og fremst blindir, sjónskertir og lesblindir en ýmsar hamlanir og aðstæður geta þó veitt aðgang að safninu, til að mynda hreyfihömlun, geðfötlun, löng sjúkralega og þroskahömlun. Safnið framleiðir allar  námsbækur fyrir framhaldsskólanema í þessum hópi á hljóðbók eða rafrænu formi og leggur áherslu á þjónustu við lesblinda nemendur.  Árlega eru lesnar um það bil 300 hljóðbækur á safninu sem er um þriðjungur þeirra bóka sem koma út á íslensku. Jafnframt eru framleiddar enskar og danskar námsbækur með hjálp talgervilstækni og lánþegar safnsins geta auk þess fengið lánaðar hljóðbækur í gegnum millisafnalán við blindrabókasöfn á Norðurlöndunum

Þeir sem óska eftir þjónustu Blindrabókasafns þurfa því að vísa fram vottorði eða skriflegri staðfestingu frá lækni eða öðrum sérfræðingum, t.a.m. sálfræðingi eða sérkennara. Jafnframt er óskað eftir upplýstu samþykki frá nýjum lánþegum sem veitir safninu leyfi til að geyma persónuupplýsingar sem fylgja vottorðum. Upplýst samþykki (pdf) má senda rafrænt.

Þeir sem gerast lánþegar með milligöngu Þjónustu- og þekkingarmiðstövar (Opnast í nýjum vafraglugga) eða Blindrafélagsins (Opnast í nýjum vafraglugga) og allir þeir sem eru orðnir 80 ára eða eldri þurfa þó ekki að framvísa vottorði.

Blindrafélagið

Blindrafélagið eru samtök blindra og sjónskertra á Íslandi. Hlutverk þess er að stuðla að því að blindir og sjónskertir einstaklingar geti lifað sjálfstæðu lífi og séu ábyrgir og virkir samfélagsþegnar.

Hljóðbók.is

Á síðunni eru  á annað hundrað titlar, nýtt og eldra efni í bland til niðurhals, á CD diskum og Mp3 diski.  Slagorðið er: GÓÐ HLJÓÐBÓK TALAR SÍNU MÁLI

Hljóðbókasíðan, hlusta.is

Hljóðbókasíðan er vefsíða á vegum Skólavefsins.is, en þar er að finna fjölbreytt úrval af hlustunarefni sem hægt er að hlusta á í tölvunni, hlaða inn á iPod eða skrifa inn á geisladiska.

Lestu.is

Lestu.is er rafbókasíða. Þar er a finna bækur af ýmsu tagi til að lesa beint af tölvunni eða í þeim nýju tækjum sem eru að ryðja sér til rúms. Enn sem komið eru eingöngu íslenskar bækur í boði og eru þær flokkaðar eftir titlum og höfundum og stöku efnisflokkum.

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer