You are here

Fyrir fólk af erlendum uppruna

Námskrá, Íslenska fyrir útlendinga - grunnnám

Fjölmenningarsetur

Fjölmenningarsetur hefur það hlutverk að greiða fyrir samskiptum fólks af ólíkum uppruna og efla þjónustu við innflytjendur sem búsettir eru á Íslandi.

Hjá Fjölmenningarsetri er hægt að leita eftir upplýsingum um margt er varðar daglegt líf á Íslandi, stjórnsýsluna og leita eftir aðstoð varðandi flutning til og frá Íslandi.

Það starfrækir upplýsingasíma á pólsku, serbnesku/króatísku, taílensku, spænsku, litháísku og rússnesku (sjá símanúmer á forsíðu vefsins). Svarað er í upplýsingasímann á viðkomandi tungumáli og samskipti eru bundin trúnaði. Þá er alltaf hægt að leita eftir upplýsingum og aðstoð með því að nota Hafðu samband' tengilinn á forsíðu vefsins.

Fjölmenningarsetrið er staðsett að Árnagötu 2-4 á Ísafirði en þjónustar allt landið. Skrifstofan er opin frá kl. 9-16 virkadaga og á skrifstofutíma er ávallt hægt að leita eftir upplýsingum á íslensku og ensku.

Tungumálatorg

Tungumálatorgið er verkefni með rætur í opinberri stefnumótun og skólastarfi.  Það byggir á starfi fjölmargra frumkvöðla og sýn á stöðu, þarfir og framtíð skóla­starfs. Í nóvember 2010 var vefsetur Tungumálatorgsins opnað.  Það byggist upp af fyrstu vefhlutunum þar sem upplýsinga-, ráðgjafar-, námsefnis- og samskiptavefir leika stór hlutverk. Tungumálatorgið er opinn vettvangur í stöðugri mótun.  Hann er notendum að kostnaðarlausu og býður í framtíðinni upp á frekari þróun efnis og samskipta.

SÍSL - Sérfræðingateymi í samfélagi sem lærir

Hugmyndin að SÍSL verkefninu er komin frá Huldu Karen Daníelsdóttur, kennsluráðgjafa hjá Þjónustumiðstöð Miðborgar- og Hlíða, sem jafnframt stýrir verkefninu.

Markmið verkefnisins er að gera kennara á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi í Mosfellsbæ og á Akranesi að sérfræðingum í fjölmenningarlegum kennsluháttum og bestu leiðum í námi og kennslu nemenda sem læra íslensku sem annað tungumál.

Lýsing: Á Akranesi og í Mosfellsbæ voru sett af stað vinnutengd þjálfunarferli (lotur) fyrir hóp kennara og annarra sem koma að námi og kennslu nemenda sem læra íslensku sem annað tungumál á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi.

Þátttakendur fengu þjálfun í leiðum (best practices) sem góðar þykja í námi og kennslu annars tungumáls og eru notaðar víða. Um er að ræða 6+1 Trait, PALS (Peer-Assisted Learning Strategies) og SIOP (The Sheltered Instruction Observation Protocol).

Þátttakendur fengu einnig þjálfun í millimenningarfærni, stöðvavinnu og fjölbreyttum lestrarleiðum ásamt fræðslu um móttöku nemenda sem læra íslensku sem annað tungumál, hvernig vinna má að gagnkvæmu aðlögunarferli allra nemenda. Bandarískir og íslenskir sérfæðingar sáu um þjálfunina.

Fjölmenningarvefur barna

Hugmyndin að Fjölmenningarvefnum varð til haustið 2000 þegar móttökudeildin í Breiðholtsskóla var opnuð. Vefurinn byggir á börnum sem flytja með foreldrum sínum víða að úr heiminum til að búa á Íslandi og hafa stundað nám í móttökudeildinni í Breiðholtsskóla. Þannig bætast við nýjar síður eftir því sem þjóðernum fjölgar. Vefurinn  auðveldar nemendunum að halda tengslum við gamla landið sitt, menningu og tungumál. Vefurinn er upplýsingaveita fyrir alla sem vinna með útlenskum börnum. Til hægri eru vefsíður á ýmsum tungumálum með námsefni og  fróðleik.  Til vinstri er löndum raðað inn eftir heimsálfum. Hvert land hefur heimasíðu. Innan hvers lands eru einkasvæði  nemenda með myndum af heimaslóðunum sem þeir velja sjálfir.   Fjölmenningarvefurinn er lifandi vefur í stöðugri þróun og tekur mið af reynsluheimi  nemendanna sem koma í deildina.

Fjölmenningarleg verkefni Borgarbókasafnsins

Fjölskyldumorgnar, Heilahristingur, Heimsóknir á vinnustaði, Lesum blöðin saman

Fjölskyldumorgnar

Miðvikudaga kl. 10:30-11.30 í Borgarbókasafnið í Gerðubergi,  Gerðubergi 3-5, s. 557 9122

Fimmtudaga kl. 10:30-11:30 í Aðalsafni, Grófarhúsi, Tryggvagötu 15, s. 411 6100

Borgarbókasafn Reykjavíkur, í samstarfi við Menningarmiðstöðina í Gerðubergi og Leikskólasvið, stendur fyrir fjölskyldumorgnum þar sem fjölskyldum með börn á aldrinum 0-6 ára er boðið að koma og eiga saman góða stund á bókasafninu. Boðið er upp á óformlega dagskrá um ýmis málefni. Leikföng og bækur fyrir börnin eru á staðnum og boðið upp á kaffisopa.Nánari dagskrá verður mótuð í samstarfi við þátttakendur með þarfir þeirra og óskir að leiðarljósi. Allir eru velkomnir og þátttaka er ókeypis. Nánari dagskrá verður mótuð í samstarfi við þátttakendur með þarfir þeirra og óskir að leiðarljósi. Allir eru velkomnir og þátttaka er ókeypis.

Auglýsing um fjölskyldumorgna á 11 tungumálum (pdf 272kb)

Heilahristingur

Kringlusafn: mánudagar kl. 14.45-16.15
Gerðubergssafn: miðvikudagar kl. 14.30-16.00
Aðalsafn: þriðjudaga og fimmtudaga kl. 15.00-16.30.

Heilahristingur felst í að aðstoða börn og unglinga við heimanám og stendur nemendum í 5.-10. bekk til boða ásmat nemendum á innflytjendabraut í fjölbraut í Breiðholti. Heimanámsaðstoðin er unnin í samvinnu við Reykjavikurdeild Rauða krossins og fékk styrk frá Þróunarsjóði innflytjendamála og frá Menntaráði.

Heimsóknir á vinnustaði

Borgarbókasafnið býður upp á heimsóknir þar sem fjölbreytt starfsemi safnsins er kynnt. Kynningin er einkum ætluð erlendum starfsmönnum. Á bókasöfnum gefst mjög gott tækifæri til að koma auga á það sem er líkt í annars ólíkum menningarheimum og einnig að skapa grundvöll fyrir jákvæða sýn á það sem er ólíkt og hvernig það getur auðgað heim okkar allra. Gestir geta fengið tónlist, bækur og annað efni að láni frá öllum heimshornum, eða notið þess á staðnum, lesið fréttir frá sínu upprunalandi á netinu, kíkt í dagblöðin sem liggja frammi, leitað að uppáhaldshöfundinum sínum og sest niður í næsta stól eða sófa, hvort sem er einir með sjálfum sér eða með öðrum. Bókasafnið er einstök gátt að samfélaginu

Lesum blöðin saman

„Lesum blöðin saman“ er fjölmenningarleg þjónusta sem boðið er upp á í aðalsafni Borgarbókasafns og felst í því að starfsmaður bókasafnsins aðstoðar þátttakendur við að fara yfir helstu fréttir og bendir á það sem er í brennidepli hverju sinni. Þátttakendum eru einnig bent á hvernig hægt er að taka virkan þátt í samfélaginu með því að koma á framfæri greinum og fréttum í íslenska fjölmiðla.

„Lesum blöðin saman“ er alla fimmtudaga í september til maí kl. 17.30 á 5. hæð í aðalsafni, Tryggvagötu 15.

Söguhringur kvenna

Söguhringur kvenna er samstarfsverkefni bókasafnsins og Samtaka kvenna af erlendum uppruna og er markmið hans að skapa vettvang þar sem konur skiptast á sögum, persónulegum eða bókmenntalegum. Hann er ætlaður konum sem hafa áhuga á frjálslegri samveru sem byggir meðal annars á því að konur deila menningarlegum bakgrunni sínum með öðrum. Í söguhringnum gefst konum af erlendum uppruna einnig tækifæri til að tjá sig á íslensku, æfa tungumálið og fræðast um íslenska menningu, bókmenntir og siði.

Söguhringurinn er undir leiðsögn Kristínar R. Vilhjálmsdóttir, kristin.r.vilhjalmsdottir@reykjavik.is og Anna Katarzyna Wozniczka, akw1@hi.is og er hann haldinn í aðalsafni, Tryggvagötu 15, fyrsta sunnudag í mánuði kl. 14.00.

Upplýsingar um Söguhringinn á mörgun tungumálum, pdf 1,77mb)

BabelFish (þýðingarsíða)

Skólaorðaforði orð sem notuð eru í skólanum og í skólastarfi á mörgum tungumálum (sjálfboðaliðar)

Samræmd próf fyrir 10. bekk á mörgum tungumálum

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer